144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[19:16]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður segir réttilega að meiri hluti sé gegn inngöngu í Evrópusambandið og jafnframt að meiri hluti sé með því að halda aðildarviðræðum áfram. Hann spyr sjálfan sig að því hvort þetta sé mótsögn. Nei, þetta er ekki mótsögn vegna þess að fólk vill fá að líta í pakkann eins og hv. þingmaður nefndi. Fólk vantar upplýsingar til að geta tekið upplýsta ákvörðun og það er bara mjög skynsamlegt og gott að þjóðin okkar vilji taka upplýsta ákvörðun í þessu máli. Það er bara mjög gott.

Nú er spurningin: Þingmaðurinn segir að afstaða hans í málinu sé að Evrópusambandið sé þekkt stærð og sá sem sæki um sé að óska eftir aðild. Ég geri ráð fyrir að það sé málið að við séum að sækja um aðild, ef við sækjum um. Hann segir: Það að kíkja í pakkann án þess að ætla að fá niðurstöðu — nei, við ætlum að fá niðurstöðu. Þegar þú ferð í samningaviðræður við einhvern þá ætlar þú að fá niðurstöðu. Þú ætlar að fá upplýsingar til að geta tekið upplýsta ákvörðun um hvort sá samningur sem menn hafa kastað á milli sín sé eitthvað sem þú vilt kaupa, hvort þú viljir skrifa undir þann samning. Það er niðurstaðan sem þú vilt fá. Þú vilt fá upplýsingarnar og getur tekið ákvörðunina. Þess vegna ferðu í samningaferlið. Það er niðurstaða samningaferlisins. Niðurstaðan getur svo verið: Nei, við ætlum ekki að ganga í Evrópusambandið. Hún getur líka verið: Já, við ætlum að ganga í Evrópusambandið. Hvort tveggja er niðurstaða. Það er það sem þú gerir þegar þú ferð í samningaferli.

Nú langar mig að spyrja hv. þingmann: Í ljósi þess að kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins, í bæklingi fyrir kosningarnar, hljóðaði svo, með leyfi forseta: „Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“ Hv. þingmaður segir að þingmenn verði að fylgja sannfæringu sinni og hafa sannfæringu fyrir því að það sé gott að fara í Evrópusambandið. En er það hans sannfæring að hann og Sjálfstæðisflokkurinn eigi að fylgja kosningaloforðum sínum?