144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[19:19]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er rétt, sem þingmaðurinn segir, en nú var gefið út kosningaplagg, loforðastefnuskrá, stefnuskrá flokksins fyrir kosningar, og í þeirri stefnuskrá segir það sem ég nefndi og vil endurtaka, með leyfi forseta: „Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“

Nú veit ég ekki hvort hv. þingmaður hafi sjálfur sagt þessi orð en þetta er það sem kom fram í kosningaloforðum og þetta er það sem margir aðrir þingmenn flokksins sögðu í aðdraganda kosninga. Mig langar aftur að spyrja hv. þingmann hvort það sé hans sannfæring að þingmenn eigi að standa við kosningaloforð, einföld spurning.

Svo er það varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur almennt. Nú segja margir að þjóðaratkvæðagreiðslur séu svo dýrar og við getum ekki gert þetta. En lýðræði er ódýrt, lýðræði er ofboðslega ódýrt miðað við annað stjórnarfyrirkomulag þar sem spilling þrífst, óskilvirkni o.s.frv. Því er kastað fram að það sé dýrt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, önnur form eru miklu dýrari. Þjóðaratkvæðagreiðslur samkvæmt bæði innanríkisráðuneytinu og Alþingi — og það sem þjóðaratkvæðagreiðslan kostaði 2012 — kosta í kringum 300 millj. kr. Nú langar mig líka að spyrja þingmanninn hvort hann sé hlynntur því og væri tilbúinn að þrýsta á það innan síns flokks að virðisaukaskattur á stangveiði, sem undanþága er á í dag, sem er 2 milljarða kr. skattstofn — hægt væri að ná inn fjármunum hátt upp í kostnað við þjóðaratkvæðagreiðslu ef farið er í 11% og vel það ef farið er upp í 24% — hvort hann sé ekki sammála því að ef við höfum ekki efni á þjóðaratkvæðagreiðslu sem kostar 300 millj. kr. þá höfum við ekkert efni á því að sækja ekki þennan virðisauka í stangveiðina sem gæti borgað fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur árlega.