144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[19:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svona til að reyna að hafa það skýrt þá tel ég að ákveðnar grundvallarákvarðanir séu þess eðlis að þær eigi skilyrðislaust að bera undir atkvæði þjóðarinnar. Ég teldi til dæmis að endanleg ákvörðun um það hvort við gengjum í Evrópusambandið hlyti alltaf að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, bara svo að dæmi sé tekið. Þar er um að ræða mjög afdrifaríkt skref sem snýst ekki um málsmeðferð eða um stöðu í málsmeðferð heldur um endanlega niðurstöðu. Undir þeim kringumstæðum fyndist mér þjóðaratkvæðagreiðsla sjálfsögð og eðlileg þó að hún sé kannski ekki skylda samkvæmt núgildandi stjórnlögum.

Varðandi hvað-ef-spurningu hv. þingmanns mundi ég segja að það væri með nokkrum hætti einfaldara að takast á við niðurstöðu atkvæðagreiðslu sem mundi snúast um slit frekar en framhald. Það er einfaldara úrlausnarefni að takast á við niðurstöðu úr slíkri atkvæðagreiðslu.