144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[20:10]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir talar um að kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafi verið hlunnfarnir, væntanlega vegna þess að einstakir þingmenn höfðu orð á því að það yrði einhvers konar þjóðaratkvæði um aðildarviðræður, áframhald aðildarviðræðna.

Vegna þessara orða vil ég spyrja hv. þingmann, af því að hún hefur verið í VG í einhvern tíma, hvort hún líti svo á að kjósendur VG hafi verið hlunnfarnir 2009 þegar allir oddvitar fylgdu því og í stefnuskrá flokksins var að sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu, a.m.k. ekki nema að undangengnu þjóðaratkvæði. Nú vitum við að sótt var um aðild að Evrópusambandinu án þess að nokkurt þjóðaratkvæði hefði farið fram.

Ég vil einnig spyrja hv. þingmann hvort frambjóðendur VG á sínum tíma hafi litið svo á að hér væri eingöngu um að ræða einhvers konar samningaviðræður sem ekkert fylgdi með annað en að sjá hver niðurstaðan yrði og síðan gætu menn kosið um það. Vissi VG ekki eða meðlimir í þeim ágæta flokki að aðildarviðræðum fylgdi ýmiss konar aðlögun? Menn þurftu að aðlaga hér löggjöf og gera eitt og annað svo að umræðurnar gætu haldið yfir höfuð áfram. Var hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttur kunnugt um þetta á sínum tíma eða hvað var í gangi yfir höfuð? Ég vildi gjarnan fá nánari skýringar á þessu.