144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[20:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér liggur svolítið á að það verði einhvers konar þjóðaratkvæðagreiðsla einhvern tíma um þetta mál og miklu fleiri. Fyrir mér snýst þetta í sjálfu sér ekki það mikið um Evrópusambandið á þessu stigi, þótt auðvitað komi það málinu við eðli málsins samkvæmt, en ég hef mikinn áhuga á því ef það eru einhverjar leiðir til þess að það verði af þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál, hvort sem það er 26. september, eins og tillagan gerir ráð fyrir, hvort sem spurningin er hvort slíta eigi viðræðunum eða taka upp þráðinn eða halda þeim áfram eða hvað þá finnst mér gríðarlega mikilvægt, vegna þess hvert er komið, að málið endi fyrir dómi þjóðarinnar. Þess vegna hef ég mikinn áhuga á öllum hugsanlegum útfærslum sem menn geta sætt sig við, ef þeir geta ekki sætt sig við það sem hér er lagt til.

Ég átti í samtali áðan við hv. þm. Birgi Ármannsson og sömuleiðis hv. þm. Brynjar Níelsson og aftur, án þess að vilja leggja þeim nein orð í munn, fannst mér ég skynja von, veika, pínulitla von til þess að þeir gætu hugsanlega verið hlynntir einhvers konar útfærslu á málinu sem mundi raunverulega enda í þjóðaratkvæðagreiðslu, alla vega undir einhverjum kringumstæðum.

Þá velti ég því fyrir mér hvernig hv. þingmaður mundi líta til þess til dæmis ef sátt næðist um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu meðfram næstu alþingiskosningum, meðfram næstu forsetakosningum eða á einhverjum öðrum tímapunkti en 26. september 2015. Mér þætti vænt um ef hv. þingmaður gæti sagt mér hvað hann telur í þeim efnum.