144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[20:22]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Fyrst og síðast tek ég undir það með þingmanninum að við eigum almennt að auka þátttöku þjóðarinnar með einhvers konar þjóðaratkvæðagreiðslum. Vissulega kosta þær og það er kannski heppilegt, eins og hér var nefnt, ef hægt er að halda þær meðfram öðrum kosningum. Sumum þykir það gott og öðrum ekki, sumir telja að það hafi truflandi áhrif á meðan aðrir telja gott að halda þær með og það drífi jafnvel fleiri á kjörstað.

Ef samkomulag næðist á meðal þingflokka á Alþingi mundi ég vilja sjá þetta gert með því að afgreiða málið í nefnd þar og fram kæmi nefndarálit þar sem væri fram hvenær, þótt við höfum reyndar upplifað á þessu þingi að þingið sé ekki bundið af þingsályktunartillögum. Ég mundi vilja fá staðfest að þetta yrði gert en ekki einungis samið milli formanna á bak við tjöldin, eins og maður segir, eða eitthvað slíkt, að það yrði formgert á einhvern hátt. Ég tel að nauðsynlegt sé að ákvarða um þetta fyrirkomulag milli Íslands og Evrópu á lýðræðislegan hátt og eins ég sagði áðan tel ég að það hafi verið mistök á sínum tíma að leita ekki til þjóðarinnar. Ég tel að við eigum að gera það með upplýstri umræðu svo að við verðum ekki endalaust með þetta mál á dagskrá. Mér þykir það taka of mikinn tíma frá mörgum öðrum mikilvægum málum í þjóðarumræðunni, en það verður samt sem áður að útkljá málið. Þetta er auðvitað stórpólitískt utanríkismál fyrir þjóðina.