144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[20:39]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að taka upp þráðinn þar sem hv. þingmaður lauk máli sínu. Þjóðin vill ekki ganga inn í Evrópusambandið en hún vill fá að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort við eigum að halda áfram með aðildarviðræður. Ég er sammála þingmanninum að það væri farsælast fyrir okkur sem viljum ekki fara inn í Evrópusambandið. Forsendur okkar eru eflaust ekki allar þær sömu en mínar forsendur eru að minnst kosta þær, miðað við það sem ég veit um Evrópusambandið í dag og stjórnarfyrirkomulagið þar, að mér sýnist þar vera valdsamþjöppun, valdið sé komið fjær fólkinu en á Íslandi. Það er erfitt að breyta kerfinu hér en það er þó möguleiki að gera það. Við komumst ansi nálægt því á síðasta kjörtímabili að fá nýja stjórnarskrá.

Þessi sterka krafa um aukið lýðræði, um aukna þátttöku almennings sem við ræðum í dag, mun bara halda áfram að aukast. Undiralda upplýsingatæknibyltingarinnar þýðir að fólk er byrjað að tileinka sér þau gildi með þátttöku sinni í samfélaginu og á samfélagsmiðlum og þau gildi munu bara halda áfram að styrkjast. Ég tel líka að kerfisbreytingar í átt til lýðræðis séu auðveldari á Íslandi en í stóru bandalagi eins og Evrópusambandinu. Það eru mínar forsendur fyrir því að telja að við séum betur stödd fyrir utan sambandið en fyrir innan það. Sjálfstæðisflokkurinn sagði fyrir kosningar í kosningastefnuskrá sinni að hann teldi hagsmunum okkar betur borgið utan Evrópusambandsins en innan en lofaði þó að þjóðin tæki ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu. Þetta er það sem kjósendum var lofað. Hvað finnst þingmanninum um það? ...(Forseti hringir.) Hvað á það að kosta(Forseti hringir.) … að svíkja kosningaloforð?