144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[20:46]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það voru nokkur atriði sem mig langaði að fá viðbrögð hennar við. Ég veit að tíminn er stuttur þannig að ég kannski þrengi það aðeins niður en mér finnst þessi umræða og nálgun Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs áhugaverð. Þar er í raun verið að segja að hreyfingin ákveði að horfa til aðferðafræðinnar við ákvarðanatökuna, láta hana ganga framar, þ.e. að lýðræðislega nálgunin gangi framar efnislegri afstöðu flokksins ef ég skil þetta rétt. Það er áhugaverð sýn á málið, tel ég, og ég tel að við eigum að gera þetta í fleiri málum þar sem auðséð er að þingið ræður ekki við mörg stór verkefni. Samsetningin hér og líka hið þéttriðna net hagsmunaafla sem að mörgu leyti hafa tök á þinginu koma í veg fyrir að við getum tekið ákvarðanir í stórum málum, þar á meðal þessu.

Mikil umræða hefur orðið hér í tengslum við Evrópusambandsmálið, að illa hafi verið farið af stað með það og þingmenn þvingaðir til að taka afstöðu gegn eigin sannfæringu á síðasta kjörtímabili. Nú langar mig að spyrja hv. þingmann, hún var í samstarfsflokki okkar á síðasta kjörtímabili, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, og kaus gegn þessari ákvörðun: Var hún þvinguð til þess að einhverju leyti? Þessi umræða er auðvitað algerlega óþolandi af hálfu þeirra sem hana stunda þegar staðreyndin er sú að atkvæði féllu á ýmsa vegu.