144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[20:51]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að rifja hér upp og nefna hinn mikla ómöguleika í málinu. Ég er þeirrar skoðunar að þeir sem lýsa slíku yfir, að ómöguleiki sé fólginn í því að fylgja lýðræðislegri niðurstöðu þjóðarinnar í máli ef þeir eru ekki sammála henni, eigi ekki erindi í ráðherrastól. Það er einfaldlega þannig.

Sem ráðherrar eiga menn að geta unnið faglega og starfað samkvæmt þeim samþykktum sem Alþingi gerir og í þessu tilfelli yrði um að ræða meirihlutavilja þjóðarinnar. Það er bara einfaldlega þannig. Það er enginn ómöguleiki í því að menn séu faglegir og gangi þannig til verka, alls ekki. Ég held að allt tal um ómöguleika lýsi einhverju öðru en þeim veruleika sem blasir við þegar þjóðin er annars vegar. Það er enginn ómöguleiki í því, að mínu mati, að þjóðin geti tekið afstöðu og síðan sé það okkar að vinna úr því.