144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[20:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alveg leiðbeint hv. þingmanni um hver næstu skref yrðu að vera varðandi þetta mál. Ef þjóðin mundi samþykkja í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu að halda viðræðum áfram og tvö ár eftir af kjörtímabilinu þá ættu menn að vinda sér í að klára að opna þessa stóru og erfiðustu kafla, sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál. Ég sé fyrir mér að það mundi kannski liggja fyrir hálfu ári fyrir næstu kosningar og þá er framhaldið í höndum þjóðarinnar í lýðræðislegum kosningum.

Ef þjóðin mundi samþykkja slíkan samning þá mundi hún styðja þá flokka sem hefðu unnið að slíku. Þá er það bara þannig. Það eru engir eilífir við stjórnvöld, hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né aðrir flokkar. Þá væri þjóðin að lýsa þeim vilja sínum að hagsmunum hennar væri betur borgið þarna. Ef það færi á hinn veginn að þjóðin mundi hafna áframhaldandi aðildarviðræðum þá gætu menn verið vissir um að þetta mál yrði lagt til hliðar. Er ekki bara ágætt að fá einhverja niðurstöðu í svona málum frekar en vera að velkjast með þau endalaust eins og með lík í lestinni og gera miklu fleiri hlynnta því að máta sig við Evrópusambandið og í raun skapa spenning fyrir því að ganga inn í það? Menn eru bara að kynda undir þann bálköst.

Ég svara spurningunni um VG í seinna andsvari.