144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[20:58]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég náði ekki alveg þessu svari. Ég velti bara fyrir mér: Það er búið að samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu að ég, ég er í ríkisstjórninni, eigi að halda aðildarviðræðum áfram. Hvað þýðir það? Þá þýðir það að ég verð að klára þær. Á ég þá að semja við (Gripið fram í: Þú getur stoppað ef það er óásættanlegt.) — nei, það er búið að samþykkja að halda viðræðunum áfram. Þá get ég ekki ákveðið að stoppa á einhverjum tímapunkti. (Gripið fram í: … markmið er ríkjandi.) Nei, þjóðaratkvæðagreiðslan er um þetta, þingsályktunartillagan er um þetta nákvæmlega.

Þess vegna segi ég: Ég verð þá bara að semja við Evrópusambandið, í ríkisstjórninni, um að þeir fái yfirráð yfir auðlindinni. Þá ber ég ábyrgð á slíkum samningi og ber hann svo undir þjóðina. Er það þetta sem við erum að tala um. Þetta lít ég á sem ómöguleika. Þess vegna nota ég orðið ómöguleiki þegar þingsályktunartillagan er orðuð með þessum hætti. Það væri þá gáfulegra að spyrja hvort við eigum að stöðva viðræðurnar eða ekki, slæmt líka en þó gáfulegra en hitt.