144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[21:01]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Þingsályktunartillagan sem hér er til umfjöllunar er allsérstök að formi til. Ég vildi í upphafi máls míns víkja aðeins að því, þ.e. forminu.

Hér liggur fyrir þinginu þingsályktunartillaga um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum, eins og sagt er, halda skuli áfram. Nú liggur reyndar fyrir að íslensk stjórnvöld sendu Evrópusambandinu bréf í mars á þessu ári með þeim fyrirmælum að ekki verði lengur litið á Ísland sem umsóknarríki. Í því ljósi hvarflaði að mér að þingsályktunartillagan væri formsins vegna, vegna orðalagsins í henni, hreinlega ekki tæk til afgreiðslu á þessu þingi. Hún er einfaldlega ekki í samræmi við raunveruleikann. Halda áfram hverju? Viðræðunum er lokið og það sem meira er, íslensk stjórnvöld hafa sérstaklega áréttað að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki. Þegar af þeirri ástæðu er tillagan allsérstök. Væntanlega kemur þetta atriði sérstaklega til umræðu í hv. utanríkismálanefnd sem fær málið til umfjöllunar.

Um hvað er þingsályktunartillagan hins vegar efnislega? Í þessu ljósi og í ljósi raunveruleikans hefði ég talið nær fyrir áhugamenn um inngöngu í Evrópusambandið að leggja fram þingsályktunartillögu t.d. um að hefja viðræður og þá með einhvers konar leiðbeiningu um samningsforsendur eða markmið. Langeðlilegast hefði hins vegar verið að þessir áhugamenn um aðild Íslands að Evrópusambandinu hefðu komið fram af heiðarleika og lagt fram þingsályktunartillögu eða lagafrumvarp, til að taka af allan stjórnskipulegan vafa um gildi afstöðu Alþingis í málinu, um að fela ríkisstjórninni að sækja um aðild að ESB að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn.

Ég bendi á að hafi mönnum í þessum sal þótt staða Íslands óljós gagnvart ESB undanfarið varpar þessi þingsályktunartillaga engu ljósi á þá stöðu nema síður sé. Af hverju koma flutningsmenn tillögunnar ekki hreint til dyranna í þeim efnum og endurflytja þingsályktunartillögu sína frá árinu 2009, með þó þeirri jákvæðu viðbót svo því skuli nú haldið til haga að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarumsókn?

Það er rétt að fagna þeirri umræðu sem hefur orðið hér um þjóðaratkvæðagreiðslu í tengslum við ESB-umsókn, í öllu falli fagna ég því að menn virðast almennt vera sammála um það þvert á alla flokka að eðlilegt sé að spyrja þjóðina álits áður en sótt er um aðild eða aðildarviðræðum haldið áfram, ef menn vilja túlka það þannig. En ég er auðvitað hugsi yfir því að fólkið sem vildi alls ekki, ekki með nokkru móti, bera aðildarumsóknina árið 2009 undir þjóðina er nú komið á þessa skoðun og þessu sama fólki er mjög umhugað um að fá leiðsögn þjóðarinnar í málinu.

En af hverju skyldi það nú vera að menn hafi ekki lagt fram þingsályktunartillögu eða lagafrumvarp um umsókn að Evrópusambandinu í dag eða á þessu þingi? Mér finnst svarið blasa við. Það er vegna þess að þessir sömu flutningsmenn tillögunnar geta það ekki. Þeir geta ekki flutt tillögu sem kvæði á um ályktun um að Ísland sækti um aðild vegna þess að það eru ekki allir flutningsmenn þingsályktunartillögunnar sem hér er til umræðu þeirrar skoðunar að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Þess vegna geta þeir ekki lagt fram þingsályktunartillögu sem væri miklu meira í stíl við það sem þingsályktunartillagan felur kannski efnislega í sér, sem er umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

Það virðist vera kominn upp hópur manna, a.m.k. hér á þingi, sem telur aðildarviðræður einhvers konar markmið í sjálfu sér. Það er orðið eitthvert pólitískt keppikefli sumra hv. þingmanna að vera í aðildarviðræðum. Þetta sama fólk hefur það ekki að markmiði að ganga í Evrópusambandið. Það vill bara vera í aðildarviðræðunum. Það er alveg nýtt. Flokkar þessa fólks hafa það jafnvel á stefnuskrá sinni að ganga ekki í Evrópusambandið en það er samt keppikefli að vera í aðildarviðræðum. Þetta er alveg nýr veruleiki, þetta þekkjum við ekki frá fyrri tíð og það verður fróðlegt að fylgjast með kosningabaráttu þessara flokka eða stjórnmálamanna af þessum toga næst. …(Gripið fram í.) Nei, ég hef ekki áhuga á að ganga í Evrópusambandið en ég legg á það mikla áherslu að við séum í aðildarviðræðum. (Gripið fram í.)

Hvaða farsaleikskáld sem er væri fullsæmt af þeirri leikfléttu og því leikriti sem er hér boðið fram fyrir þjóðina. Þetta er auðvitað ekkert annað en farsi. (Forseti hringir.) Maður gengur niður Laugaveg pakksaddur eða í öllu falli lystarlaus, gengur inn á veitingastað, sest þar við borð, fær matseðil, lætur dedúa og dekstra við sig, borðað kannski brauðið sem er ókeypis og drekkur vatnið úr glösunum, gengur síðan út. Nei, það var aldrei ætlunin að borða, ég er ekki svangur. Ég vildi bara kíkja á matseðilinn, vildi bara velta honum fyrir mér, átti leið um. Þetta er auðvitað farsi og þetta er ekki boðlegt. Þeir sem hafa tekið að sér það verk að vera í forustu í stórum stefnumálum þjóðarinnar, hafa á því skoðun hvert skuli halda — þetta er auðvitað ekki boðlegt. Þetta er farsi, alger farsi, leikrit sem er sett á svið fyrir þjóðina undir því yfirskini að verið sé að koma til móts við vilja hennar. Stjórnmálamenn hér, lýðræðislega kjörnir fulltrúar, ætla bara að gefa það eftir að hafa ekki lengur skoðanir á hlutunum. Það á að leita leiðsagnar þjóðarinnar í málinu og vera í aðildarviðræðum en þó ekki ganga inn og því er aldrei svarað hvernig þessu á að lykta.

Virðulegi forseti. Utanríkisráðherra sendi bréf í mars eins og ég gat um í upphafi máls míns til Evrópusambandsins. Því skal haldið til haga að bréfið var ritað í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur um að stöðva viðræðurnar. Það var fyrrverandi ríkisstjórn sem stöðvaði viðræðurnar á síðasta kjörtímabili. Sú ríkisstjórn setti málið á ís og þeir sem stöðvuðu viðræðurnar á síðasta kjörtímabili koma hér fram kinnroðalaust og leggja fram þingsályktunartillögu sem á að snúa því upp á núverandi ríkisstjórn að ljúka málinu, sem þeir höfðu þó alla burði til að ljúka við ef þeir hefðu viljað það, fjögur ár. Það á að snúa því upp á núverandi ríkisstjórn.

Ég vil að lokum geta þess að ég tel að þingsályktunartillagan sé þess utan tæknilega vanbúin, hún felur í sér vanbúið verklag eins og fyrri þingsályktunartillaga og er í raun og veru vanvirðing við íslenskt stjórnskipulag. Hér á eftir að taka afstöðu til breytinga á stjórnarskrá áður en menn ætla að ræða við Evrópusambandið. Vilja menn ekki gera það fyrst? Vilja menn ekki leiða það mál til lykta að menn geti yfir höfuð gengið í Evrópusambandið áður en menn fara að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið upp á hundruð millj. kr. (Forseti hringir.) án þess að nokkur heimild sé fyrir því í stjórnarskránni að nokkru leyti?