144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[21:14]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig varðar bara ekkert um það hverja Evrópusambandið telur stöðu Íslands vera. (JÞÓ: En forseti Alþingis.) Það er búið að senda Evrópusambandinu bréf, stjórnvöld Íslands hafa sent Evrópusambandinu bréf, þar sem skýrt kemur fram að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki og það bara nægir, það er afstaða Íslands. Hvað Evrópusambandið ætlar að gera við það bréf eða hvað það gerir í sínum skjalaskáp, það varðar mig bara ekkert um og ætti ekki að varða þingið sérstaklega. Það verður þó að teljast furðulegt, svo að ekki sé meira sagt, ef Evrópusambandið heykist á því að viðurkenna bréfið með einhverjum hætti. Þetta er náttúrlega mjög undarlegt.

Ég nefndi tæknilegan ágalla á þessari þingsályktunartillögu. Ég átta mig á því að menn geta lagt fram, eins og hv. þm. Jón Þór Ólafsson nefnir það, alls kyns rugl og ég held að ég geti fullyrt að þetta mál er svo sem ekki fyrsta málið af slíkum toga og alveg örugglega ekki hið síðasta. Það breytir því hins vegar ekki að það hlýtur að koma til alvarlegrar skoðunar hjá hv. utanríkismálanefnd hvort nefndin sjálf geri ekki tillögu um að málinu verði vísað frá eða einstakir þingmenn. Það hefur hvarflað að mér að gera það. Maður er bara svo nútímalegur og víðsýnn að maður vill greiða fyrir umræðu í öllum málum og atkvæðagreiðslu. Það er kannski ágætt að þetta mál fari í atkvæðagreiðslu sem fyrst.