144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[21:18]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé að ég þarf að koma mér í mjúkinn hjá hv. þingmanni vegna þess að hann talar fyrir hönd þjóðarinnar, hann veit hver þjóðarviljinn er og samkvæmt honum er sá vilji bara einn. Það liggur fyrir að þjóðarviljinn telur brýnt að kjósa um áframhaldandi aðildarviðræður.

Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á nýrri skoðanakönnun sem var kynnt í vikunni, í fyrradag. Þar er spurt hvort viðkomandi svarendur vilji að Ísland verði áfram umsóknarríki að ESB. Niðurstaða úr þeirri könnun er sú að ekki nema 41,6% vilja að Ísland séu áfram umsóknarríki að ESB. Öllu fleiri vilja að Ísland sé ekki umsóknarríki að ESB (JÞÓ: Hvaða könnun?) og 15,9% tóku ekki afstöðu. Þetta er könnun sem vefritið Andríki lét gera og var framkvæmd af MMR, skoðanakönnunarfyrirtæki, fyrir þá sem er umhugað um þjóðarvilja og skoðanakannanir.

Ég ætla ekki að leggja það til hér að menn hlaupi eftir skoðanakönnunum, alls ekki, eða leggi of mikla vigt á skoðanakannanir. En mér hefur fundist hv. þm. Jón Þ. Ólafsson, í andsvari hér rétt áðan, ásamt fleiri þingmönnum, hafa talað ansi fjálglega um þjóðarviljann í þessu sambandi. Menn eru svolítið hömlulausir, ef ég mætti segja sem svo, í túlkun sinni á þjóðarviljanum.

Hvað varðar kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins vil ég hins vegar segja að ég hef aldrei gefið upp þá afstöðu eða lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræðurnar sem slíkar og er ekki bundin af loforðum annarra manna, einstakra frambjóðenda.