144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[21:23]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég nefndi um stjórnskipun Íslands var eingöngu í þeim tilgangi að benda á að það eru allir sammála um að breyta þarf stjórnarskrá Íslands hyggist menn ganga í Evrópusambandið. Það hlýtur að vera fyrsta verkefni áhugamanna um inngöngu Íslands í Evrópusambandið að ganga frá því máli. Menn hljóta að gera það. Menn hljóta að bera þá virðingu fyrir stjórnarskránni að menn skoði að hvaða leyti hún heimili aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það er bara það sem ég benti hér á, ef það er spurning hv. þingmanns, ég áttaði mig ekki á að hann væri að spyrja út það í sérstaklega, eða hvort þar var eitthvað annað atriði undir.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson var ekki með aðra spurningu konkret. (HHG: Hvernig viltu skoða þjóðarviljann, spyrja þjóðina?) — Já, það er alveg ótvírætt að það hlýtur að þurfa og ég held að þverpólitísk sé samstaða um — ég held að það hafi verið og sé þannig núna, þó að flutningsmenn þeirrar tillögu sem hér er til umræðu hafi staðið svona óhönduglega að verki við framlagningu hennar — að spyrja þjóðina hvort menn vilji fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Það er það sem menn áttu að gera á síðasta kjörtímabili. Það var ekki gert. Og erum við þá ekki sammála, hv. þingmaður og ég, um að sú þingsályktunartillaga og sú vegferð sem farið var í á síðasta kjörtímabili var ólýðræðisleg? Getum við ekki verið sammála um að hún var ólýðræðisleg? Og ef við erum sammála um það, er þá ekki rétt að menn vindi ofan af þeirri vitleysu?