144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[21:27]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson misskilji mig illilega eða afstöðu mína í þessu máli. Við erum alveg sammála um það, hv. þingmaður og ég, að aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið verður ekki hrundið af stað og ekki heldur haldið áfram, ef menn kjósa að líta svo á að þær séu enn í gangi, án þjóðaratkvæðagreiðslu um það. Það er alveg ljóst.

Þess vegna spurði ég í ræðu minni af hverju flutningsmenn þingsályktunartillögunnar hefðu ekki frekar sett fram þingsályktunartillögu um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, um aðildarviðræður. Af hverju var það ekki lagt fyrir þingið? Ég veit svarið. Vegna þess að þá hefði það orðið þannig að sumir flutningsmenn þingsályktunartillögunnar hefðu ekki greitt henni atkvæði. Það er bara þannig.

En við erum alveg sammála um það, hv. þingmaður og ég, að það þarf að spyrja þjóðina í þessu máli. Það var ekki gert árið 2009 og það verður ekki haldið áfram á grundvelli þingsályktunartillögu sem var hrundið í framkvæmd með svo ólýðræðislegum hætti; henni verður ekki haldið áfram af þessari ríkisstjórn. Það er alveg ljóst.