144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[21:43]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að taka lýðræðisvinkilinn sem hv. þingmaður talar um. Nú hafa verið uppi gagnrýnisraddir gagnvart þjóðaratkvæðagreiðslu um að þær séu svo fjandi dýrar, að við höfum bara ekkert efni á þeim. 300 milljónir? Nei, það er nú mikið hægt að gera fyrir 300 milljónir, við höfum engan veginn efni á því. Við leggjum til dæmis ekki virðisaukaskatt á laxveiði, á stangveiði á Íslandi. Það er tveggja milljarða kr. skattstofn. Ef við færðum það í neðra skattþrepið mundum við ná inn fé sem væri hátt upp í þjóðaratkvæðagreiðslukostnaðinn, við mundum kannski getað haldið þrjár þjóðaratkvæðagreiðslur á kjörtímabili fyrir þann pening. En ef við færðum stangveiðina í efra skattþrepið gætum við haldið þjóðaratkvæðagreiðslu á ári hverju og rúmlega það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki hlynnt því að barist verði fyrir því innan flokks hennar. Ég hef talað við marga sjálfstæðismenn og þeir segja: „Jú erum að fara að gera þetta, þetta verður gert“, o.s.frv. Mig langar bara að halda þessum þætti inni í umræðunni í tengslum við lýðræðið. Ef menn segja við höfum ekki efni á þjóðaratkvæðagreiðslum sem kosta 300 milljónir höfum við heldur ekki efni á því að innheimta ekki skatt sem nú er undanþága fyrir vegna einhvers konar „loophole“ sem réttilega á að loka og gera skattkerfið þannig skilvirkara. Það er eitt af því sem nefnt var þegar var verið að breyta virðisaukaskattinum, þ.e. að minnka bilið á milli þrepanna og fækka undanþágum. Þegar maður kaupir sér veiðileyfi til þess að veiða í ám er ekki fasteignaleiga, það er „loophole-ið“. Það er hægt að loka því. Það er hægt að innheimta þennan réttláta skatt á stangveiði og við getum haldið þjóðaratkvæðagreiðslu á hverju ári.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki hlynntur því almennt að þrýsta á það í flokki sínum og í stjórnarsamstarfinu og (Forseti hringir.) eins því að við höfum oftar þjóðaratkvæðagreiðslur.