144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[21:46]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð nú að viðurkenna að ég er ekki tilbúin að ákveða það hér og nú að einhver sérstakur skattur verði lagður á til þess að hægt verði að halda þjóðaratkvæðagreiðslur. Í mínum huga eru þjóðaratkvæðagreiðslur annað og miklu meira en það að tengja þær einhverjum sérstökum skatti eða leggja skatt á einhverja sérstaka atvinnustarfsemi eða einhverja sérstaka þætti. Við þurfum að horfa til þess að nú eru í gangi ákveðnar samfélagsbreytingar sem kalla á það, hvort sem okkur, ungum sem gömlum, líkar það betur eða verr, að fólk vill fá meiri aðkomu að málum sem skipta það sjálft máli, meiri aðkomu en að koma aðeins að samfélagsmálum á fjögurra ára fresti, hvort heldur er í kosningum til sveitarstjórna eða til alþingiskosninga. Fólk á sér þá ósk að sú aðkoma verði með öðrum hætti en tíðkast hefur hér alla jafnan. Samfélag okkar er einfaldlega að breytast í þá veru eins og mörg önnur samfélög. Þá þurfum við sem erum þjóðkjörnir fulltrúar á hinu háa Alþingi að velta því fyrir okkur hvernig ætlum við að koma til móts við samborgara okkar í þeim efnum.

Af því að hv. þingmönnum Pírata er umhugað um internetið og aðra þætti þar, bendi ég á að rafrænar kosningar sem slíkar gætu akkúrat verið þáttur í því ferli sem við tölum um hér. Það þarf ekki að setja upp kosningastaði vítt og breitt um landið og kalla saman fólk á einn stað til að greiða atkvæði. Við gætum rætt málin með öðrum hætti og tekið þannig afstöðu til ýmissa og fleiri mála (Forseti hringir.) með rafrænni kosningu.