144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[21:48]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Ég held að máli skipti að það komi fram að hún er ekkert ein um þessi sjónarmið í sínum flokki. Hún talar fyrir hóp fólks sem hefur kannski ekki fengið mikla áheyrn að undanförnu og það er það sem mig langar að gera að umtalsefni.

Allir stjórnmálaflokkar eiga sér ákveðna sögu um Evrópusambandið. Meira að segja Framsóknarflokkurinn var einu sinni á því að sækja ætti um aðild og samþykkti tillögu þar að lútandi á janúarfundi árið 2009 þegar núverandi forsætisráðherra var kjörinn formaður. Síðan hefur sá flokkur skipt um skoðun í málinu og farið algjörlega hinn veginn. Samfylkingin, þá sögu þekkja allir. Við vorum með allsherjarkosningu, að minnir mig 2001 frekar en 2002, þar sem þetta var samþykkt í allsherjaratkvæðagreiðslu innan flokksins. VG hefur alltaf verið á móti og síðan er það Sjálfstæðisflokkurinn. Ég er dálítið undrandi á því hversu hart menn þar ganga fram akkúrat núna í málinu við að ná niðurstöðu um að loka og slíta.

Ástæðan fyrir því að ég er undrandi á því, og mér þætti vænt um að heyra frá hv. þingmanni hvers vegna hún telur svona vera, er vegna þess að í kosningabaráttunni var talað um að þetta mál ætti að fara í atkvæðagreiðslu meðal þjóðarinnar. Í stjórnarsáttmálanum, eins og hv. þingmaður nefndi, er ekki talað um slit heldur hlé o.s.frv. þannig að hvergi er talað um að ganga eins hart fram og menn hafa reynt að gera undanfarið.

Ég spyr hv. þingmann í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur oft verið litinn öfundaraugum af öðrum stjórnmálaöflum fyrir að ná að vera breiðfylking að ákveðnu leyti, rúma mörg ólík sjónarmið í ýmsum málum, þar á meðal í Evrópumálinu: Hvað er það núna sem knýr forustu Sjálfstæðisflokksins til að taka svona einarða afstöðu í málinu, að því er virðist að óþörfu?