144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[21:52]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svör hennar. Það sem hefur oft verið styrkur Sjálfstæðisflokksins er einmitt að vera með þessa breidd og rúma hana. Hvergi hefur verið kveðið á um það í samþykktum flokksins að það eigi beinlínis að slíta þessum viðræðum heldur hefur verið talað um hlé, það hefur verið talað um að þrátt fyrir þetta lýðræðislega ferli sé flokkurinn andvígur aðild o.s.frv. En það að ganga svona hart fram hef ég hvergi séð samþykkt eða ritað.

Ég spyr hv. þingmann að þessu af því að ég velti því fyrir mér og líka í ljósi þess að það er mikil hreyfing á fylgi og alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn, eða forustan a.m.k., virðist vera búinn að ákveða að hverfa frá því að vera breiðfylking eða rúma breið sjónarmið og fara í það að vera með afgerandi harða afstöðu í ákveðnum málum. Maður sér það líka í því hversu hart er gengið fram gegn ákveðnum einstaklingum sem fjalla um þessi mál á opinberum vettvangi. Það finnst mér umhugsunarefni og það þýðir að breytingar eru að verða í flokkalandslaginu og hinu pólitíska landslagi. Það verður áhugavert að sjá hvert það leiðir.

Virðulegi forseti. Mig langar að lokum að spyrja hv. þingmann hvað hún telur valda þeim sinnaskiptum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins frá síðasta kjörtímabili og þar til nú að menn telja að þeir geti ekki samþykkt að spyrja þjóðina þessarar spurningar núna á meðan menn voru tilbúnir til að spyrja þjóðina áður en lagt var af stað árið 2009. Hvaða rök telur hv. þingmaður að menn hafi fyrir því, vegna þess að því miður hafa ekkert margir stjórnarþingmenn (Forseti hringir.) talað í þessu máli. Ég mundi gjarnan vilja heyra hver hún telur rökin vera.