144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[22:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Því er ekki að leyna að við ræðum náttúrlega tillögu minni hlutans núna af því að við höfum af því áhyggjur að stöðva eigi það ferli sem sett var af stað á síðasta kjörtímabili, málið um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Það vofir yfir okkur að slíta á þeim viðræðum með einhverjum klækjabrögðum án eðlilegrar aðkomu þingsins og án þess að svara ákalli fjölmargra kjósenda um að fá að greiða þjóðaratkvæði um framtíð umsóknarinnar.

Komið hefur verið inn á það í ræðum og ekki síst í andsvörum frá ýmsum stjórnarliðum að mismunandi sýn er á að þeir flokkar sem að tillögunni standa hafi ekki alltaf verið fylgjandi þjóðaratkvæði, að þeir séu stundum fylgjandi þjóðaratkvæði og stundum ekki og inn í það er Reykjavíkurborg blandað.

Mig langaði til að spyrja hv. þingmann: Hver er ástæðan í hans huga fyrir því að mikilvægt er að nákvæmlega þetta mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?