144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[22:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nú eins og talað úr mínu hjarta. Það mikilvægasta við breytingar á stjórnarskrá að mínu mati er að málskotsréttur þjóðarinnar verði settur inn, að þjóðin hafi færi á því að knýja fram bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur um ákvarðanir sem Alþingi hefur þegar tekið.

Hv. þingmaður nefnir tvo varnagla í sambandi við þjóðaratkvæðagreiðslur og beint lýðræði almennt, þeir eru nefndir ítrekað með réttu vegna þess að það er mikilvægt að halda þeim til haga. Það eru annars vegar ákvarðanir um hluti eins og fjárlög. Það er einhvern veginn gefið að slíkar ákvarðanir eiga ekki heima í þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég vek athygli á því að í frumvarpi stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga er sérstaklega gert ráð fyrir því að fjárlög fari ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu, þau eru sérstaklega undanskilin af mjög málefnalegum ástæðum að mínu mati. Ég hef enn ekki hitt neinn sem er ósammála því fyrirkomulagi, en ef málið um ESB á ekki heima í þjóðaratkvæðagreiðslu veit ég ekki hvaða mál á heima þar. Það er mikið til gildisspurning, spurning um hvort menn vilja hafa tækifæri til að taka upplýsta ákvörðun eða ekki.

Hitt atriðið sem hv. þingmaður nefnir er spurningin um það sem stundum er kallað ofríki meiri hlutans Það er tvennt sem ég hef að athuga í því efni; annars vegar að hægt er að setja sumu takmarkanir, valdsviði þjóðar og valdsviði stjórnmálamanna. Stjórnarskráin getur gilt um ákvarðanir þjóðarinnar alveg eins og hún gildir varðandi ákvarðanir okkar á Alþingi. Hins vegar á ofríki meiri hlutans sér einnig stað í fulltrúalýðræði. Ég mundi jafnvel gerast svo djarfur að stinga upp á því að fulltrúalýðræði sé veikara fyrir því ofríki vegna þess að þá sækja menn sér beinlínis í vinsældir með því að finna einhvern sökudólg, (Forseti hringir.) einhvern minnihlutahóp sem hægt er að berja á og kenna um sjálfum sér til framdráttar. Við þekkjum dæmi um það. Beint lýðræði er ekki ógn við þetta. (Forseti hringir.) Það er ekki ógn að þessu leyti, held ég, ekki umfram fulltrúalýðræði nema að því leyti að það (Forseti hringir.)