144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[22:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög erfitt að gerast spámaður í þeim efnum hversu líklegt er að sérstaða okkar yrði viðurkennd og tekin til greina í það ríkum mæli að við fengjum sérlausnir í þá veru til dæmis sem skilgreindar voru í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar vorið 2009.

Ég held að staðan sé sú að almennt innan Evrópusambandsins sé mikill skilningur á því að Ísland hafi þarna umtalsverða sérstöðu. Ég hefði efnislega haft trú á því að við ættum að geta sannfært menn um það til dæmis að við yrðum að fá sérlausnir í sjávarútvegsmálum og það væri öllum fyrir bestu. Og hugsunin hefur verið sú að við fengjum það viðurkennt að íslenska fiskveiðistjórnarsvæðið yrði skilgreint sem sérstakt svæði. Það liggur ekki að öðrum svæðum ESB og í því gæti lausnin að einhverju leyti verið fólgin.

Ég hef líka haft trú á því að við gætum, með þeim sterku rökum sem við höfum, til dæmis tryggt fæðuöryggið eða matvælaöryggið og fengið undanþágu fyrir því að flytja ekki inn lifandi dýr. Þegar kemur að ýmsu öðru hef ég meiri efasemdir. Ég sé seint fyrir mér að Evrópusambandið mundi fallast á að Ísland gæti haldið áfram hvalveiðum og ég hugsa að það yrði erfitt að sækja áframhaldandi bann við innflutningi á hráu kjöti og hrámeti úr því að ESB og ESA eru hvort sem er á bakinu á okkur út af því nú þegar vegna EES-aðildar. Það er því svona bæði og.

Vandinn er líka sá að þó að ýmsir hefðu skilning á sérstöðu okkar innan Evrópusambandsins er ekki þar með sagt að það væri auðvelt fyrir Evrópusambandið sjálft að koma til móts við okkur. Tökum dæmi í sjávarútvegi, vegna þess að auðvitað yrðu þeir langleitir í Skotlandi og Írlandi og víðar ef Ísland fengi í aðildarviðræðum allt aðra meðhöndlun og miklu meira sjálfstæði innan málaflokksins en þeir sjálfir hafa. Og það er kannski vandinn ekkert síður en hitt að skilning skorti á sérstöðu okkar innan Evrópusambandsins. Þetta gæti því reynst torsótt, meðal annars af pólitískum ástæðum innan Evrópusambandsins sjálfs.