144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[22:26]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé hárrétt mat hjá hv. þingmanni að þetta er ekkert auðvelt. Þeir eru ekkert auðveldir þeir samningar sem vonandi eru fram undan á þessu málasviði. En það vekur umtalsverða furðu að flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn — sem er mjög bundinn tæknilegri umræðu og formumræðu, veit fátt skemmtilegra en að komast í hana — virðist einhvern veginn ekki hafa trú á því að Ísland geti verið harðsnúið og útsjónarsamt í samningum. Mér finnst það undarlegt þegar við lítum til þess að utanríkismálanefnd var árið 2009 með mjög vel unnið nefndarálit; það var mjög skýr vegvísir í því um hvernig ætti að fara að þessum málum. Þar að auki var samninganefndin sérlega vel skipuð af mjög færu fólki.

Ég get haft fullan skilning á því að deilur séu um hvort við viljum vera í bandalagi eins og Evrópusambandinu, ríkjabandalagi. Reyndar á ég erfiðara með að skilja að fólk vilji ekki vera í bandalaginu en vilji „teika“ það í EES og einhvern veginn taka við því sem frá Evrópusambandinu kemur þá leiðina. En ég get skilið að fólk aðhyllist ekki Evrópusambandið af hugmyndafræðilegum ástæðum. En það truflar mig þessi skortur á sjálfstrausti þegar kemur að því að við sem þjóð getum barist fyrir hagsmunum okkar, t.d. á sviði sjávarútvegs. (Forseti hringir.) Ég er sannfærð um að við getum það. Og ég er jafn sannfærð um að ef hagsmunum okkar er ógnað og við náum ekki fram því sem við þurfum í samningum (Forseti hringir.) verður enginn tilbúinn til að samþykkja þá.