144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[22:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var ekki af Íslands hálfu eða átti að minnsta kosti ekki að vera samningatækni og nema síður sé. Við til dæmis í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hömruðum á því að einhverjir af erfiðu köflunum yrðu opnaðir eins fljótt og hægt væri og þeim yrði ekki öllum safnað saman í lokin. Hvort Evrópusambandið hugsaði það öðruvísi að einhverju leyti treysti ég mér ekki alveg til að segja og það reyndi kannski ekki beinlínis á þetta fyrr en kemur inn á þennan tíma þegar við erum farin að bíða eftir því að rýniskýrslan um sjávarútveg opnist.

Það verður líka sanngirninnar vegna að halda því til haga að undirbúningsvinnan af hálfu stjórnvalda hér heima var langviðamest í þessum erfiðu köflum. Það var til dæmis lögð mikil vinna og talsverður kostnaður í að byggja upp röksemdir okkar varðandi búfjársjúkdómana og hollustu- og heilbrigðisþættina og við vorum með erlenda sérfræðinga með okkur í því að smíða þær greinargerðir og undirbúa þann málflutning vel. Svipað má segja um sjávarútveginn, það var viðamikið starf sem fór fram við að undirbúa og undirbyggja samningsafstöðu okkar. Það tók vissulega sinn tíma. Við vorum ekki einu sinni sjálf alveg tilbúin fyrr en kom vel inn á árið 2010 og 2011 í þeim efnum. En undir lokin varð alveg ljóst hvar þetta var strand, a.m.k. hvað sjávarútveginn varðar.

Sumir voru með þær kenningar að svona gerðist þetta yfirleitt, kaupin á eyrinni væru þannig þarna, menn geymdu það erfiðasta þangað til síðast og svo væri höggvið á þá hnúta á leiðtogafundum, þetta tekið upp á æðstu borð og þar væri jafnvel höggvið á svona erfiða hnúta á lokasprettinum. Og sjálfsagt hefði það að einhverju leyti getað endað þannig í Íslands tilviki eins og mörgum fleirum, jafnvel þó að menn ætli sér það ekki, þó að það sé ekki uppleggið í byrjun að erfiðustu hlutirnir vilja tefjast og standa í mönnum og lenda þar af leiðandi aftarlega.

Það lá auðvitað strax fyrir að EES-kaflarnir, þeir sem þegar voru inni, yrðu fljótafgreiddastir, enda varð það raunin. Síðan var það þá fyrst og fremst einn kafli sem tengdist því sviði sem beið, fjármagnsflutningarnir út af (Forseti hringir.) stöðu Íslands í þeim efnum sem tímabundið er mjög sérstök.