144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[22:40]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það er með nokkrum ólíkindum að við séum að ræða tillögu um framhald á viðræðum sem voru hafnar og samþykktar á hinu háa Alþingi sumarið 2009 með þingsályktun, sem hefur hvorki verið dregin til baka né hefur önnur þingsályktun verið samþykkt á þingi sem hefur dregið hana til baka.

Ég sit í hv. utanríkismálanefnd og er mikill áhugamaður um Evrópusambandið og tengsl Íslands við aðrar þjóðir og umheiminn. Eins og flestir vita er Björt framtíð áhugaflokkur og hefur lýst yfir stuðningi við inngöngu í Evrópusambandið. Við teljum líklegt að hún verði til hagsældar. en við lýsum og höfum alltaf lýst yfir miklum stuðningi við að aðildarviðræður verði kláraðar og að tilbúinn samningur verði lagður fyrir þjóðina. Þannig að það er ákveðin breyting, ákveðin stefnubreyting, að taka þátt í að leggja fram tillögu til þingsályktunar um framhald viðræðna sem var samþykkt að fara út í á Alþingi 2009 og hefur ekki verið samþykkt að draga til baka.

Það er ekki að ástæðulausu sem þessi tillaga er komin fram. Eins og allir vita og hefur verið ágætlega farið yfir í umræðunni í dag samþykkti Alþingi að fara í viðræður 2009, umsóknarbeiðni var send til Evrópusambandsins, viðræður voru hafnar og gengu um margt mjög vel og kannski að sumra mati jafnvel of vel, eins og kom fram í tveimur ágætum skýrslum sem voru lagðar fyrir þingið í fyrra. Fyrir kosningarnar 2013 lýstu eiginlega allir flokkar misákveðið yfir að ekki yrði tekin stór ákvörðun um að draga til baka umsókn og sumir orðuðu það sem svo að ekki yrði haldið áfram umsókn öðruvísi en það færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Frá upphafi hafa allir flokkar verið eða kvittað upp á þá hugsun að samningur yrði aldrei samþykktur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég var ekki á þingi árið 1949 þegar Ísland gekk í NATO og ég var ekki á Alþingi árið 1970 þegar Ísland samþykkti aðild að EFTA. Ég var ekki einu sinni á þingi árið 1994 þegar Ísland samþykkti EES-samninginn sem hefur haldið ansi vel þótt að æ oftar komi upp umræða um að það sé jafnvel býsna ólýðræðislegt, svo ekki sé meira sagt, að taka hér við miklu lagaverki beint frá Evrópu án þess að Íslendingar hafi haft kost á því að taka þátt í gerð þess lagaverks, en samningurinn og þátttaka okkar í EES hefur reynst okkur mjög vel. Sömuleiðis var þátttaka okkar í EFTA gæfuspor fyrir Ísland og þátttakan í NATO, þó svo að hún sé umdeildari, hefur verið hluti af þeirri almennu utanríkisstefnu Íslands að taka þátt í alþjóðastarfi, vinna þétt með nágrannaþjóðum okkar og þeim þjóðum sem næst okkur liggja. Þrátt fyrir að þessar ákvarðanir hafi verið teknar á Alþingi án beinnar aðkomu þjóðarinnar hefur ríkt um þær þokkaleg sátt.

Tímarnir hafa breyst frá 1949. Í dag og sérstaklega eftir hið mikla hrun, ekki einungis efnahagslegt heldur ekki síður siðferðislegt, ég segi hrun á trausti sem varð í kjölfar efnahagshrunsins 2008, held ég að tilhugsunin um að gera jafn stóra og afdrifaríka breytingu á íslensku samfélagi og íslensku stjórnkerfi eins og að ganga í Evrópusambandi, eða ganga í EFTA, NATO eða samþykkja samning á borð við EES, sé óhugsandi án aðkomu þjóðarinnar, í það minnsta í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu áður en Alþingi kemst að lokaniðurstöðu.

Það sem er með ólíkindum er að við séum að ræða að fara í sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að halda áfram viðræðum sem var samþykkt að fara út í. Nú hef ég sjálfur, bæði sem fjárráða einstaklingur og í störfum mínum í viðskiptum og svo framvegis komið að mörgum samningum, engum jafn stórum og þykkum og EES-samningnum eða samningi um inngöngu í ESB en mörgum samningum engu að síður. Öll þau ferli hafa átt það sameiginlegt að farið er af stað með þá hugsun og þá ósk að ná góðum samningum, að ná ásættanlegum samningum. Þegar sú ákvörðun hefur verið tekin er hafið samningaferli þar sem báðir aðilar reyna að ná sem bestum samningum, helst svokölluðum „win-win“-samningum eða samningum sem báðir aðilar geta sætt sig við og verið ánægðir með. Þegar samningavinnunni er lokið taka báðir afstöðu til þess hvort þeir samþykkja samninginn. Að því loknu tekur samningurinn gildi.

Þrátt fyrir að samningur um inngöngu í Evrópusambandið sé talsvert flóknari og lengra ferli en þeir samningar sem ég hef tekið þátt í, t.d. við bankann minn eða fyrir hönd atvinnurekenda, þá gilda sömu lögmál. Það sem er svo merkilegt við að hafa hlustað á þessa umræðu í allan dag er að mér líður eins og við séum enn þá að þrátta um tæknileg smáatriði. Mér líður stundum eins og ég hafi keypt rafmagnstæki af nýstárlegri tegund og sé að reyna að skila því af því það er gallað og það sé verið að þrátta um smáatriði í smáa letri í einhverjum samningi.

Auðvitað er þetta flókið ferli. Evrópusambandið er flókið. Reglur Evrópusambandsins eru flóknar og saga samninga annarra landa við Evrópusambandið er flókin. Í fyrra voru lagðar fram tvær skýrslur um stöðu viðræðna Íslands við Evrópusambandið. Í þeim komu fram mörg atriði um möguleika Íslands á sérlausnum, jafnvel undanþágum, mörg merki um það hve vel viðræðurnar hefðu gengið. Þrátt fyrir það höfum við þráttað um þetta á þingi í allan dag. Sumir þingmenn, einkum úr stjórnarflokkunum, hafa bent á þá punkta sem þeim þykja styðja það að ekkert sé um að semja og að illa hafi gengið og svo framvegis, á meðan aðrir þingmenn hafa bent á hve vel hafi gengið, komið með ágætisdæmi um alls konar undanþágur og sérlausnir. Síðan hafa menn þráttað mikið um hvað gerðist á þingi í fortíðinni, hver sagði hvað 2009, hver skrifaði grein 2008 og slíkt.

Frú forseti. Ég verð að segja með fullri virðingu að mér þykir eiginlega með ólíkindum að umræðan sé ekki komin lengra. Mér finnst hún algjör endurtekning á þeirri umræðu sem ég sjálfur tók þátt í fyrir réttu ári þegar við ræddum skýrslurnar og tillögu hæstv. utanríkisráðherra um að draga umsóknina til baka. Það eina sem er á hreinu er að hér hefur eiginlega myndast pólitískur ómöguleiki til þess að ræða málið, hvað þá að taka um það ákvörðun.

Ef það er eitthvað vitað úti í þjóðfélaginu þá er það það að hugmyndin um þátttöku Íslands eða inngöngu Íslands í Evrópusambandið mun ekki gufa upp. Ég var ekki á þingi þá en ég man vel umræðuna um að leyfa bjór, umræðuna um að leyfa litasjónvarp. Sú umræða gekk hér árum saman þangað til tekin var ákvörðun. Umræðan um Evrópusambandið mun ekki hverfa hversu heitt sem hæstv. utanríkisráðherra óskar þess. (Forseti hringir.) Ef það er pólitískur ómöguleiki fyrir pólitíkina (Forseti hringir.) að klára þetta mál, landa samningi og leggja hann fyrir þjóðina þá verðum við að fá beina aðgöngu þjóðarinnar að því að klára þetta ferli.