144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[23:00]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Stórt er spurt. Til að byrja með hef ég ekki miklar áhyggjur af því eða alla vega ekki jafn miklar áhyggjur af því og margir af hættunni á því að Ísland missi fullveldi sitt, ég hef fulla trú á því að nágranna- og vinaríki okkar í Evrópu séu fullvalda. Ég vil meina að bæði Þýskaland, Danmörk og Írland séu fullvalda ríki þrátt fyrir að þau taki þátt í Evrópusambandinu. Þó svo að ekki hafi reynt á það er Evrópusambandið eins og önnur alþjóðleg samtök þannig gert að alltaf er hægt að ganga úr því.

Ég held að við Íslendingar höfum ágæta reynslu af því sem er gott við það að vera í Evrópusambandinu vegna þess að við höfum haft eins konar aukaaðild að því í gegnum EES frá 1994. Þaðan höfum við fengið mikið af góðri löggjöf, sérstaklega í umhverfismálum, neytendamálum, í framleiðslu og öryggi matvæla o.s.frv., o.s.frv. Þetta höfum við að vísu allt saman fengið án þess að taka þátt í þeim ákvörðunum þar sem við höfum ekki setið við borðið, heldur einungis tekið við tilskipununum. En þetta hefur allt saman að miklu leyti verið Íslandi til mikilla hagsbóta, fyrir utan auðvitað aðgengi Íslands að mörkuðum, aðgengi Íslendinga til starfa, ferða o.s.frv. um Evrópu. Allt eru þetta mjög jákvæðir hlutir.

Sömuleiðis tel ég að Ísland sem smáríki í heimi sem alltaf er að verða minni og minni og flóknari og flóknari sé háð góðu og nánu sambandi og samstarfi við önnur ríki og nágrannaríki okkar. (Forseti hringir.) Ég kem kannski betur að því í seinna andsvari.