144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[23:05]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og segja það að mér fannst hún bara betri undir bjölluhljómi í lokin.

Virðulegi forseti. Mér fannst áhugaverð umræða sem skapaðist hér á undan um fullveldið vegna þess að mér finnst það mjög mikilvæg spurning þegar við horfum til samskipta okkar við Evrópusambandið. Ég lít svo á að við séum að endurheimta fullveldi okkar með því að gerast aðilar að Evrópusambandinu miðað við þá stöðu sem við erum í núna. Þegar maður fær yfir sig regluverk þar sem maður hefur ekki sæti við borðið í lýðræðislegum stofnunum sem taka ákvarðanir um innihald þessa regluverks, það tel ég vera lakari stöðu en að ganga þar inn, sitja við borðið með öðrum sjálfstæðum ríkjum, vera við borðið í lýðræðislegum stofnunum þar sem ákvarðanir eru teknar um framtíð okkar. Það er það sem Evrópusambandið snýst um. Það er samstarf fullvalda ríkja sem sitja jöfn við borð og taka ákvarðanir um framtíð sína og sinna borgara.

Staðan sem við erum í í dag er að mínu mati á mjög gráu svæði. Það finnst mér vera umræða sem við eigum að taka oftar upp og ræða fyrir alvöru, sú veika staða sem við höfum í ákvarðanatöku þegar við erum einskonar aukaaðilar að Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn.

Virðulegi forseti. Þetta var samt ekki efni spurningar minnar og ástæðan fyrir því að ég bað um andsvar, heldur langaði mig að spyrja hv. þingmann hverja hann teldi vera ástæðuna fyrir því að menn ganga jafn hart fram og með jafn afgerandi hætti nú og raun ber vitni við að slíta viðræðum þegar staðreyndin er sú að í stjórnarsáttmálanum kemur hvergi fram að það eigi að gera. Það kom ekki fram í aðdraganda kosninganna og í kosningabaráttunni að það ætti að gera, en menn ganga miklu lengra og miklu harðar fram, jafnvel gegn (Forseti hringir.) sjónarmiðum innan eigin raða, í því að slíta viðræðum núna. Hver telur þingmaðurinn að ástæðan sé fyrir því?