144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[23:25]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, er nema von að hv. þingmaður spyrji. Það eru nokkrir þingmenn hér á Alþingi sem eru liðsmenn Heimssýnar, en þar er nú mikið talað um aðlögun og það væri ágætt að þau lýstu fyrir okkur í hverju hún felst. Þegar verið var að undirbúa aðildarviðræðurnar var farið yfir lagaumhverfi í þeim málaflokkum og á þeim sviðum sem samningarnir fóru fram á. Þetta var heilmikil vinna innan Stjórnarráðsins. Þá var farið yfir það hverju þyrfti að breyta í lögum á Íslandi ef til aðildar kæmi. Það var auðvitað ýmislegt sem hefði þurft að breyta og einhverjar stofnanir sem hefði þurft að breyta eða koma á fót. En það var ekkert sem kallaði á það, það var enginn að neyða okkur til þess að gera einhverjar breytingar áður en til aðildar kæmi. En þetta var eitthvað sem lá fyrir að þyrfti að gera. Ég tel að í þeirri vinnu hafi líka komið í ljós ýmsar breytingar sem gott væri að gera, óháð því hvort við værum aðilar að Evrópusambandinu eða ekki.

Ég held að það væri kannski betra að eiga orðastað við aðlögunarfólkið um þetta enda virðast þau hafa kynnt sér þetta vel og óttast það mjög.