144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[23:40]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spannaði margt á stuttum tíma. Varðandi lýðræðisþáttinn vorið 2009 er rétt að það stóð alltaf til og hefur alltaf staðið til og stendur til í hugum allra, hygg ég, að fara með endanlegan samning fyrir þjóðina. Ég man ekki betur en hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi verið nokkuð nærri okkur í andanum í þessu máli þegar við ræddum um nauðsyn þess að hafa tvöfalda atkvæðagreiðslu og spyrja þjóðina beint hvað hún vildi, en ekki fara þessa ólýðræðislegu leið. Þess vegna finnst mér svolítið skrýtið þegar margir sem hafa blessað þá ólýðræðislegu leið gerast óskaplega örir í máli þegar talað er um lýðræðið í öðru samhengi, þegar verið er að stöðva umræðurnar.

Varðandi undanþágur geta menn haft sínar skoðanir á þeim. Ég gef ekki mikið fyrir þær. Ég veit ósköp vel að innan Evrópusambandsins er horft til ýmissa þátta. Það er reynt að búa til sérreglur um landbúnað á norðurslóðum o.s.frv., en mergurinn málsins er að um er að ræða hvort við viljum gerast aðili að sambandi sem er núna örum skrefum að þróast yfir í ríki og er að dýpka í þeim skilningi. Þess vegna var það að Noregur 1972 og svo aftur 1993 og 1994 glímdi við allt annan veruleika en Balkanríkin hafa verið að gera. Við trúðum því að okkar biði svipað ferli og Noregs á 10. áratugnum, en ekki að við værum sett undir sama straujárn og Balkanríkin voru sett síðar.