144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[23:42]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eitt af því sem Íslendingum tókst að ná fram, og engin önnur þjóð sem ég man eftir náði fram, var nákvæmlega það að þurfa ekki að undirgangast aðlaganir. Það er hins vegar alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það var ekki endilega það sem menn lögðu upp með alveg í upphafi. Það var Alþingi Íslendinga, utanríkismálanefnd, sem óskaði eftir því að sú leið yrði farin og hennar var freistað og eins og hv. þingmaður man komum við heim úr þeirri för með þá niðurstöðu frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að Íslendingar þyrftu ekki að aðlaga sitt regluverk eða lög að neinu leyti gagnvart Evrópusambandinu áður en fyrir lægi jáyrði þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það sem við þyrftum hins vegar að geta væri að sýna fram á áætlanir um það hvernig við þyrftum að gera það.

Hv. þingmaður hafði á sínum tíma miklar áhyggjur af því með öðrum að við þyrftum til dæmis að gerbreyta stofnanakerfi landbúnaðarins. Því var haldið fram, að vísu ekki af hv. þingmanni, að hér þyrfti að búa til sex nýjar stofnanir. Hvernig var það þegar upp var staðið? Jafnvel áður en menn gengu til samninga um landbúnaðarmálin lá algerlega skýrt fyrir að þær sex, eftir atvikum 12, stofnanir sem menn töldu að þyrfti að setja upp í kringum landbúnað og byggðamál hrundu saman í eina skrifstofu sem hægt yrði að koma fyrir í fjármálaráðuneytinu. Þannig er hægt að fara yfir hverjar einustu röksemdir og andrök þeirra sem voru mótsnúnir aðildarferlinu og héldu því fram að það væri einhver stórkostleg aðlögun í gangi, hennar sér hvergi stað og ég ætla ekki að gera hv. þingmanni gramt í geði með því að spyrja hann neitt frekar út í hvaða lögum var breytt. Það var engum lögum breytt og til að rifja það upp fyrir hv. þingmann greiðir hann atkvæði með lögum nánast dag hvern og þriðjungurinn af þeim er vegna þess að þau koma, svo ég leyfi mér að (Forseti hringir.) …, á faxinu frá Brussel. Það er fullveldið í dag.