144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[23:44]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar menn fara út í statistík og tölfræði um lögin sem koma frá Evrópusambandinu er mjög mikið af því alls kyns stöðlun, smávægilegir hlutir sem við náum fram innan þess vegna embættiskerfisins í stjórnsýslunni o.s.frv. og eru ekki meiri háttar mál. Ég horfi til stóru málanna, grundvallarmála sem lúta að markaðssamfélaginu um hreyfanleika vinnuaflsins, um réttindi launafólks og réttindaleysi, því að það er stöðugt þrengt að réttindum launafólks í Evrópu. Ég horfi til slíkra hluta.

Ég minni hv. þingmann á að við vorum sammála um það á þessum tíma, og ég vísaði þar í stækkunarstjóra Evrópusambandsins sem einnig talaði í þá veru, að við trúðum því að þetta ferli yrði miklu skemmra en raunin varð og ekki eins mikið á dýptina. Við trúðum því. Svo varð reyndin önnur og reyndin varð líka sú að það var borið á okkur fé. Hingað streymdu milljarðar í styrki sem heita aðlögunarstyrkir. Ég hafnaði þeim í ráðuneyti mínu, í innanríkisráðuneytinu. (Gripið fram í.) Það var aldrei (Gripið fram í.) tekin króna þangað inn. Auðvitað voru aðstæður stofnana og ráðuneyta ekki alveg sambærilegar að öllu leyti en ég stóð algerlega gegn því, við reyndum að gera það, að taka við þessum aðlögunarstyrkjum til að laga kerfi okkar að því sem gerist hjá Evrópusambandinu. (ÖS: Þú bjóst til …) En sumir sjá náttúrlega aldrei neitt, aldrei neina galla, engar flísar, hvað þá bjálka í augum Evrópusambandsins.