144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér hefur aðeins borist í tal sú ákvörðun sem tekin var af eigendum og stjórnendum Granda um launakjör stjórnarinnar þar. Það er auðvitað fagnaðarefni að það sé svigrúm til þess að hækka laun umtalsvert en það verður að segja eins og er að hér er verið að hækka við kolranga hópa. Það er ánægjulegt að þetta svigrúm sé fyrir hendi vegna þess að öllum er auðvitað löngu ljóst að það er veruleg þörf á kjarabótum en auðvitað ekki til stjórnarmanna eða stjórnenda í fyrirtækjum, enda sýnir samanburður við Norðurlöndin og kjör þar að í þeim enda launastigans erum við ágætlega samkeppnishæf. Kjörin hjá meðal- og lágtekjufólki á Íslandi standa langt að baki nágrannalöndunum. Þess vegna er eðlileg og sjálfsögð krafa að það góða svigrúm sem stjórnendur og eigendur Granda hafa staðfest að er til staðar til launahækkana í landinu verði nýtt til þess að lyfta sérstaklega lægstu laununum og þá ekki síst þeim sem eru með undir 300 þús. kr. á mánuði. Hver maður hlýtur að velta fyrir sér hvernig í ósköpunum er yfir höfuð hægt að lifa á þeim á Íslandi árið 2015.