144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að tvær framsóknarkonur, hv. þingmenn, komu hingað í gær og töluðu um röflið í okkur í minni hlutanum langar mig aðeins að taka stöðuna. Ég held að við séum öll sammála um að við viljum nýta tímann vel í þingsal, en nú þegar líður að þinglokum hefst leikritið sem snýst eiginlega um það að minni hlutinn veit ekkert í hvað stefnir, hvaða mál verða tekin á dagskrá og hvaða mál koma inn. Meiri hlutinn ranghvolfir augunum og skilur ekkert í því að það sé málþóf í gangi, enda kannast þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks auðvitað ekkert við málþóf, vita ekkert hvað það er. Skipulagið á allri dagskránni er í hálfgerðu uppnámi. Ég hef ekki hugmynd um dagskrána fram undan og hvaða mál koma inn í þingið. Mun hæstv. félagsmálaráðherra koma með sín mál? Verður sumarþing? Hvað er hér í gangi?

Við viljum öll leggja góðum málum lið og koma þeim í gegn. Vandamálið er að hæstv. forseti þarf að hafa dagskrárvaldið, en hann hefur það ekki því að hann er framlenging á framkvæmdarvaldinu. Þegar fer að líða að þinglokum fara fram samningafundir í hinum og þessum herbergjum þar sem allir eru orðnir dauðþreyttir og ruglaðir og virðast ekki endilega vita hvað fer fram á þeim nema hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, sem hefur verið í þeirri stöðu að vera bæði þingflokksformaður og formaður.

Ég spyr: Af hverju erum við ekki að semja núna? Af hverju erum við ekki að ræða dagskrána fram að þinglokum núna? Ef við ætlum að semja um einhver mál, hvaða þingmannamál við viljum fá inn eða hvernig þetta á að fara fram, af hverju erum við þá ekki að ræða það núna? Ég kalla eftir því.

Ég skora á framsóknarkonurnar tvær að taka þetta samtal við sína forustu því að það er á ábyrgð stjórnvalda að þingstörfum hér vindi vel fram og að við klárum þetta þing. Það er ekki á ábyrgð okkar í stjórnarandstöðunni. (Gripið fram í.)

Ég frábið mér allt tal um eitthvert röfl. Ég tel mig bara málefnalega þegar ég kem upp í ræðustól og tel (Forseti hringir.) að það séu þingmenn almennt.