144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Á fundi greiningardeildar Arion banka í morgun komu fram margar vísbendingar um að bjart sé fram undan í efnahagsmálum á Íslandi á næstu missirum og árum. Fram kom meðal annars að hagvaxtarhorfur hér á landi eru betri en í helstu viðskiptalöndum. Tekur greiningardeildin þar með undir niðurstöðu í nýlegu áliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í þessu efni. Í álitinu kemur fram að mikill þróttur er fram undan í atvinnuvegafjárfestingu, einkum í kísilverum og hótelbyggingum. Rétt er einnig að geta um meiri fjárfestingu í sjávarútvegi og fiskvinnslu þar sem bjartsýni og kraftur ríkir á ný eftir að ofsköttun undanfarandi ára hefur linnt auk þess sem afli hefur aukist og hækkandi verð er á flestum veigamestu mörkuðum. Einkaneysla hefur tekið við sér og útlit er fyrir að töluverður vöxtur verði í einkaneyslu í nánustu framtíð. Samfara þessari þróun er verðbólga í sögulegu lágmarki og margt bendir til að svo geti orðið áfram ef kjarasamningar verða með þeim hætti sem hagkerfið þolir.

Helstu varnaglar sem greiningardeildin setur við spána eru annars vegar afleiðingar af losun hafta og hins vegar af þróun kjaramála í landinu. Það er því sérstök ástæða til að fagna því sem fram hefur komið af hálfu ríkisstjórnarinnar undanfarna daga varðandi losun hafta. Þau öruggu og föstu skref sem forsætisráðherra boðaði á nýliðnu flokksþingi Framsóknarflokksins og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur tekið undir á síðustu dögum eru ástæða til bjartsýni um að vel geti tekist til í þessu efni. Að vísu heyrast úrtöluraddir frá mörgum þeim sem fá í hnén þegar taka þarf stórar ákvarðanir. Það er eins og við er að búast og svo sem engin ný tíðindi.

Sem betur fer er nú við völd í landinu ríkisstjórn sem þorir, vill og getur tekið ákvarðanir í erfiðum úrlausnarefnum. Full ástæða er samt til að hafa áhyggjur af stöðu kjarasamninga en von mín stendur til að aðilar nái saman um farsæla lausn. Í því efni er rétt að benda á samþykkt nýliðins flokksþings Framsóknarflokksins um kjaramál þar sem segir, með leyfi forseta:

„Framsóknarflokkurinn styður baráttu láglaunafólks fyrir bættum kjörum. Á liðnum árum hefur almenningur tekið á sig byrðar en nú hefur rofað til í efnahagsmálum þjóðarinnar. Tillögur um 300 þús. kr. lágmarkslaun eru sanngjörn mannnréttindakrafa. Flokksþingið hvetur stjórnvöld til að hefja vinnu við styttingu vinnuviku í samráði við aðila á vinnumarkaði. Áherslur Framsóknarflokksins á auknar gæðastundir fjölskyldunnar (Forseti hringir.) og mannsæmandi kjör eru grundvöllur að eftirsóknarverðu samfélagi allra.“