144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar til að skora á þingið að við höldum sumarþing, einfaldlega vegna þess að þegar ég fer yfir öll þau miklu mál sem eiga að fara í gegnum þingið á örfáum dögum sýnist mér mjög brýnt að við stundum hér fagleg vinnubrögð, að við förum ekki með flókin mál sem varða alla landsmenn, t.d. stöðugleikaskattinn, í gegnum þingið þegar við höfum í raun og veru bara úr kvöld- og næturfundum að spila. Ég tek því heils hugar undir það sem hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir ræddi áðan undir þessum dagskrárlið. Ég tel mjög brýnt að við byrjum að ræða það hvernig störfum þingsins verður háttað og leggjum til hvenær sumarþingið verður haldið þannig að við getum skipulagt störf okkar. Við þurfum að taka fyrir stöðugleikaskatt, húsnæðisfrumvörp, seðlabankafrumvarp þar sem fjölga á seðlabankastjórum og virkjunarkosti út fyrir rammann. Hér eru verkföll, hér á að fara að taka fyrir makríl- eða fiskveiðistjórnarfrumvörp. Við erum að tala um bankabónusa þar sem ljóst er að stjórnarflokkarnir eru ekki alveg einróma og síðan eru það að sjálfsögðu öll þingmannamálin. Hér hafa margir þingmenn, bæði hjá meiri hluta og minni hluta, kvartað yfir því að þeirra mál komist ekki á dagskrá.

Þess vegna finnst mér einsýnt, forseti, að nú þegar verði boðað til fundar með formönnum flokkanna þar sem farið verður yfir störfin sem og að þetta verði sérstaklega tekið fyrir á þingflokksformannafundi nk. mánudag. Mig langar til að skora á þingmenn, hvort sem þeir eru í meiri hluta eða minni hluta, að þrýsta á að við byrjum að undirbúa fagleg vinnubrögð á Alþingi.