144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir á þingi ekki taka nægjanlega alvarlega þá alvarlegu stöðu sem uppi er í samfélaginu. Hér eru verkföll búin að vera í gangi frá því í síðustu viku með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir heilbrigðiskerfið og mikilvægar stofnanir í samfélaginu. Við sjáum yfirvofandi verkföll, það er verið að greiða atkvæði um verkfallsaðgerðir hjá stórum hópi launafólks í landinu — og hvað erum við að gera hér? Ef stjórnarandstöðuþingmenn taka þetta mál hér upp og óska eftir því að forustumenn ríkisstjórnarinnar komi hingað eftir páska og ræði þetta við okkur segja stjórnarþingmenn að við séum að röfla, að þetta sé bara óttalegt röfl.

Virðulegi forseti. Þetta eru málin sem við eigum að vera að ræða hér, með hvaða hætti við getum mætt kröfu þess fólks sem með réttu kallar eftir betri lífskjörum, bættri lífsafkomu, og við á Alþingi höfum fjölmörg verkfæri í höndunum sem við getum notað til að mæta þeirri kröfu. Og hvað gerum við hér á meðan? Menn standa í ræðustóli, segja stjórnarandstöðuna röfla, segja stjórnarandstöðuna hafa annarlegar hvatir eða ganga erinda einhverra hagsmunaafla hvað varðar höftin, þegar það eina sem óskað er eftir eru upplýsingar, að menn komi hingað í salinn, veiti upplýsingar, segi okkur hvað er á seyði, ræði við okkur um þessi stærstu hagsmunamál þjóðarinnar og um lífsafkomu og bætt lífskjör fjölda fólks í þessu landi, fólks sem kallar á það að við hlustum og svörum kröfum þess.

Virðulegi forseti. Þetta er til háborinnar skammar. Það er kominn miðvikudagur og við höfum ekki séð forsætisráðherra og við höfum ekki séð fjármálaráðherra hér í húsi.