144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

málefni Íslandspósts.

[15:43]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, fyrir að taka upp þessa umræðu hér sem ég tel mjög mikilvæga. Hann hreyfir við grundvallaratriðum í skipulagi á póstþjónustu í ræðu sinni og ég ætla að leitast við að svara þeim spurningum sem hann beinir til mín.

Fyrst aðeins gagnvart stöðunni eins og hún er í dag. Eins og hefur komið fram fer ríkið með einkarétt í póstþjónustunni og hefur falið Íslandspósti að annast hann. Einkaréttur er á dreifingu bréfa undir 50 gr, útgáfu frímerkja, uppsetningu póstkassa og á auðkenni Íslandspósts, þ.e. póstlúðrinum. Í innanríkisráðuneytinu er nú verið að vinna að breytingum á þessari löggjöf í heild sinni. Það kemur bæði til vegna tilskipunar Evrópusambandsins um afnám einkaréttar í póstþjónustu og einnig tel ég, og ég tek undir það með hv. þingmanni, þörf á því að fara yfir löggjöfina í heild sinni sem sjálfstætt álitamál. Sú vinna er í gangi. Þar er verkefnið þegar við lítum á alþjónustuna að skilgreina hvað það er sem telst grunnþjónusta í pósti, hvað það er sem þarf að vera í lagi, að bögglar komist heim til fólks á einhvern hátt o.s.frv., það þarf allt að skilgreina. Síðan eru eftir aðrir hlutir sem eru samkeppnisþættir og þá skiptir náttúrlega máli að samkeppni fái þrifist og það gerist ekki að fyrirtæki í opinberri eigu sé að vasast á samkeppnismarkaði. Það er mín afdráttarlausa skoðun að svo eigi ekki að vera en til þess að það sé hægt skiptir svo miklu máli að ljúka þessum skilgreiningum og ljúka grundvallarvinnu á löggjöfinni sjálfri. Það er verkefnið sem við þurfum að fara í núna.

Breytingarnar sem hafa orðið á samskiptaformi hafa að sjálfsögðu leitt til þess að rafrænar póstsendingar hafa aukist gríðarlega á undanförnum árum og póstmagnið minnkað miklu hraðar en menn gerðu ráð fyrir þegar þessi lagasetning og breyting var gerð á póstmálum á tíunda áratugnum. Þessa tilskipun hefur tekið töluvert langan tíma hjá okkur að innleiða, það verður að segjast alveg eins og er, tilskipunin er nr. 6/2008 þannig að það er ekki hægt að segja að við höfum ekki haft rúman tíma til að hugleiða þetta mál. Ég held að mjög brýnt sé að við komum okkur áfram með þetta og ég legg mikla áherslu á að það verði gert. Póst- og fjarskiptastofnun gerði könnun árið 2012 meðal landsmanna um viðhorf til póstþjónustu. Það var dálítið áhugavert að fá niðurstöðurnar úr henni. Þar var meðal annars spurt hversu vel það mundi henta viðkomandi að fá póst þrisvar sinnum í viku, en ekki á hverjum degi eins og við þekkjum í dag. Svarið var, og þetta var auðvitað fólk af öllu landinu, að það þjónaði 60% svarenda mjög vel. Af því má ætla, að mínu mati, að í hugum fólks sé póstþjónusta fimm daga vikunnar ekki eins mikilvæg og hún var áður.

Það má alveg velta fyrir sér hvort með tilkomu rafræns pósts kunni að vera hægt að draga úr kostnaði við alþjónustuna með því að breyta þeim þáttum. Það þarf allt að skoða þegar að þessari vinnu kemur. Fram undan er sem sagt að afnema þann einkarétt og í þeirri vinnu þarf að gera sér grein fyrir því hvernig standa eigi undir kostnaðinum við alþjónustuna. Tilskipunin gerir ráð fyrir þremur möguleikum í því efni: Í fyrsta lagi jöfnunarsjóði þar sem aðilar á markaði skipta á milli sín kostnaðinum af alþjónustu, í öðru lagi útboði á þjónustu og í þriðja lagi að ríkið styrki þessa þjónustu með beinum framlögum alþjónustuveitanda.

Ég er ekki búin að mynda mér neina endanlega skoðun á þessu en ég hallast að því að það sé á ábyrgð ríkisins að tryggja þessa grunnþjónustu, það sé hlutverk ríkisins, og það finnst mér eiga við á öllum sviðum mannlífsins, að passa hér upp á að innviðirnir og grunnarnir séu í lagi. Síðan eigum við, að mínu mati, að leyfa samkeppninni að njóta sín og ég tel að það sé mest til hagsbóta fyrir neytendur í þessu landi. Ég hygg að það eigi við á öllu landinu þótt við vitum svo sem að hér á höfuðborgarsvæðinu er auðveldara að komast í samkeppnina en annars staðar.

Þetta tel ég mikilvægt. Varðandi síðan verkefni mitt í innanríkisráðuneytinu er það hjá okkur að sjá um þennan faglega þátt póstþjónustunnar. Hlutabréfið í Íslandspósti er hins vegar í höndum fjármálaráðuneytisins þannig að skref sem stigin verða um skipulag fyrirtækisins og hvernig með það skuli fara í framtíðinni eru á forræði fjármálaráðuneytisins. En ég lýsi þeirri skoðun minni alveg eindregið að ég hef ekki séð það fyrir mér að ríkið (Forseti hringir.) ætli að fara að reka póstþjónustu til framtíðar. Það finnst mér ekki koma til greina.