144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

málefni Íslandspósts.

[15:56]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Í samtali við Fréttablaðið fyrr á árinu, það er á forsíðu 2. mars, kemur fram hjá Páli Gunnari Pálssyni, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, að þessi mál um samkeppnislagabrot beinist öll, eftir því sem hann segir, að þessum eina risa á markaði sem hefur þessa sérstöku stöðu. Jafnframt segir hann, með leyfi forseta:

„Þetta er eins og keðja, því þegar það bætist við nýtt erindi þá kemur nýr vinkill sem skýrir tafirnar að hluta. Þá þarf að stíga til baka með langt komin mál og hefja skoðun þess að hluta upp á nýtt.“

Þetta er nokkuð sem ráðherra ætti kannski að skoða. Er það virkilega þannig með fjársvelta stofnunina sem forstjóri nefnir að það sé hagkvæmt fyrir þá sem fremja samkeppnislagabrot að halda því bara áfram? Þá koma kvartanir og þá þarf bara að byrja málið upp á nýtt. Það er einkennileg staða ef það er hagur þeirra sem fremur samkeppnislagabrot að halda áfram að fremja brotin. Þetta útskýrir að hluta hvers vegna ferlið hefur tekið sjö ár, frá 2008 er búið að vera að vinna þessi mál. Menn byrjuðu á einhverju máli 2008, svo var bara nýtt brot, ný kvörtun, og af því að þessi mál tengjast þarf að hefja málið að hluta upp á nýtt. Þetta er mjög einkennileg staða. Ráðherra þarf að fara ofan í saumana á þessu, jafnvel þyrftu nefndir þingsins að kalla eftir svörum um þetta.

Eitt sem mig langar að fá að vita frá ráðherra er hvar þessi heildarlöggjöf er stödd. Hverjir geta haft áhrif á hana núna, hverjir geta komið að henni og sent inn erindi og ábendingar? Það eru örugglega margir sem mundu vilja vita það. Hvenær megum við búast við því að þingið fái að sjá slíkan lagabálk?