144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

málefni Íslandspósts.

[15:58]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Eitt af vandamálunum felst í því að bréfum fækkar og póstlúgum fjölgar og sá rekstur að bera út póst í öll hús alltaf stendur einfaldlega ekki undir sér. Ef ég skil rétt er tilbúin reglugerð sem felur í sér möguleika á hagræðingu og því að lækka dreifingarkostnaðinn með því að bera sjaldnar út. Könnun á viðhorfi neytenda hefur sýnt, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, að þeir setja sig ekki í raun upp á móti því að fá póstinn sjaldnar en ef ég skil rétt strandar þessi reglugerð á því að það er verið að bíða eftir innleiðingu á einhverri ESB-tilskipun.

Ég veit ekki alveg hvað er í gangi, hvort reglugerðin sé tilbúin og hvort ráðherra geti þá sett hana eða á hverju strandar þarna. Ef neytendur hafa ekkert á móti því að fá póstinn sjaldnar sem getur sparað fyrirtækinu hlýtur það að vera fyrsta skref.

Ég er sammála þeim sem hér hafa talað um að ríkið eigi almennt ekki að standa í samkeppnisrekstri og það þurfi ekki að vera nauðsynlegt til að standa undir einhverju öðru sem er dýrara, eins og að dreifa pósti. Mér finnst það engin rök. Þá gætu öll fyrirtæki og stofnanir á vegum ríkisins farið með sömu rökum í einhvern rekstur við hliðina á starfseminni. Sundlaugar gætu sett upp verslanir með sundbolum og sundgleraugum og bókasöfn gætu farið í samkeppni við ritfangaverslanir og bókabúðir og þar fram eftir götunum. Sundlaugar selja reyndar sælgæti, íspinna og annað sem mér finnst að þær ættu ekki að gera, en það er önnur saga.

Ég er fylgjandi því sem hér hefur komið fram, að við eigum að skoða hvort ríkið eigi (Forseti hringir.) að reka þessa þjónustu.