144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

málefni Íslandspósts.

[16:07]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér málefni Íslandspósts og ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir að taka þetta mál upp og hæstv. ráðherra Ólöfu Nordal fyrir innlegg hennar og svör. Þetta er verðskulduð umræða, málefni Íslandspósts hafa eðli máls samkvæmt verið á borði eftirlitsaðila og þó nokkuð hefur borið á því, sérstaklega undanfarnar vikur, að málefni fyrirtækisins hafa verið í fjölmiðlum.

Hér hefur komið fram að Íslandspóstur hefur einkarétt á dreifingu bréfa undir 50 gr en um leið hvílir sú lögbundna skylda á fyrirtækinu að veita öllum landsmönnum á jafnræðisgrundvelli sambærilega þjónustu með ákveðnum gæðum og á viðráðanlegu verði. Þegar upp er staðið er það mín skoðun að grunnþjónustan skipti öllu máli og hvaða ákvörðun verði tekin um þann ágreining sem hefur komið fram í umræðunni um skörun samkeppnisrekstrar og einkaréttarins. Helsta gagnrýni og athugasemdir eftirlitsaðila undanfarin ár snúa einmitt að því að fyrirtæki ná ekki að skilja fullkomlega þarna á milli. Það er grafalvarlegt mál, ef rétt er, að verið sé að flytja kostnað af samkeppnisrekstri yfir á einkaréttinn. Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar hefur forstjóri fyrirtækisins sagt að þessu sé þveröfugt farið. Auðvitað þarf að greina þennan ágreining, en það blasir við að taka þarf þá vandasömu ákvörðun hvort ríkið eigi yfir höfuð að standa að rekstri Íslandspósts, í það minnsta í óbreyttri mynd, en um leið verðum við að verja grunnþjónustuna (Forseti hringir.) og jafnræði verðs og gæða um allt land.