144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

málefni Íslandspósts.

[16:10]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka umræðuna. Í fyrsta lagi verður að útkljá það deiluefni hvort Íslandspóstur noti tekjur af einkaleyfisþættinum til að niðurgreiða samkeppnisreksturinn eða ekki. Það er óviðunandi að ársskýrsla fyrirtækisins skuli ekki svara þessari spurningu. Hún gerði það til 2012, þá kom fram í ársreikningum að það var þannig, einkaleyfisþátturinn niðurgreiddi samkeppnisreksturinn, þess vegna höfum við umkvartanirnar. Þetta er óviðunandi. Við eigum að taka það alvarlega þegar ríkisfyrirtæki verða uppvís að samkeppnisbrotum. Íslandspóstur er í sáttameðferð núna vegna samkeppnisbrota. Það þýðir í mínum kokkabókum að hann hafi orðið uppvís að samkeppnisbrotum. Það er fólk í landinu sem vill kannski taka að sér að flytja týndan farangur fyrir Icelandair til heimila og fyrirtækja í landinu. Þetta er það sem Íslandspóstur gerir með samningi við Icelandair. Það er fólk í landinu sem vill kannski standa að fjölpósti og bögglasendingum og hinu og þessu, stofna til gagnageymslu og þar fram eftir götunum. Þetta er allt saman rekstur sem Íslandspóstur er í núna, hugsanlega í krafti einkaleyfis síns. Þetta er vont fyrir frjálst samkeppnisumhverfi í landinu og ég fagna því að hæstv. ráðherra er sammála mér um þetta.

Íslandspósti er kannski vorkunn. Veröldin er einfaldlega að breytast. Maður þarf ekki annað en að lesa lagabálkinn um póstþjónustuna til að sjá að það er ekki langt þangað til hann verður úreltur þannig að fyrirtækið neyðist kannski til að bögglast í þessum samkeppnisrekstri.

Hver er framtíðin í þessu? Ég held að grunnþjónustunni verði sinnt með rafrænum hætti. Ég held að það sé rosalega mikilvæg grunnþjónusta að byggja upp internetið einfaldlega eins og við erum að gera, ljósleiðarakerfið úti um land allt, (Forseti hringir.) þannig að allir séu í samskiptum. Síðan er vaxandi eftirspurn eftir netverslun og alls konar bögglasendingum því tengdum. Við eigum einfaldlega að leyfa fyrirtækjum á frjálsum markaði að keppa um hylli neytenda í þessu efni. Ég segi: Byggjum upp Íslandspóst, seljum fyrirtækið og notum andvirðið til að byggja upp einfaldlega rafræn samskipti á Íslandi.