144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

málefni Íslandspósts.

[16:12]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Íslandspóstur starfar á grundvelli þeirrar löggjafar sem um hann gildir og hann þarf auðvitað að gera það. Að lögum hefur hann þessu einkahlutverki að gegna og hann stendur að sjálfsögðu við það sem í lögunum segir.

Varðandi deilur um samkeppnisbrot verður það að vera til meðferðar hjá viðeigandi yfirvöldum. Það er mjög brýnt að úr því verði leyst. Auðvitað er óheimilt að niðurgreiða samkeppnisrekstur með einkaleyfinu, það liggur alveg fyrir. Um þetta er ágreiningur þar sem fyrirtækið hafnar því, ágreiningur sem ég get ekki lagt mat á, en þar til bær yfirvöld verða að komast að niðurstöðu um það. Það varpar hins vegar ljósi á það hversu brýnt það er ef við lítum til framtíðarskipulags þessara mála og þá er það mín eindregna skoðun að við þurfum að ljúka við að skilgreina þessa alþjónustu, koma okkur saman um þær grunnþarfir sem ríkið þarf að standa við að sé sinnt og síðan á ríkið að mínu mati ekki að vasast í samkeppnisrekstri. Mín skoðun er sú að þegar undirbúningi og lagasetningu er lokið og menn búnir að slípa þetta til sé kominn sá tímapunktur að það eigi að selja Íslandspóst. Það er það sem ég sé fyrir mér í framtíðinni að verði gert.

Ég vil núna fara að undirbúa það gagnvart innanríkisráðuneytinu að fara í þær lagabreytingar sem þarf á sviði póstmála en ég ítreka að hlutabréfið um Íslandspóst er ekki í innanríkisráðuneytinu, það er í fjármálaráðuneytinu. Engu að síður er það okkar að skilgreina þessa þætti.

Ég á von á því að ég geti lagt fram lagafrumvarp um þetta á komandi þingi. Það er enn í vinnslu í ráðuneytinu. Stórir þættir um fjármögnun alþjónustu standa út af borðinu. Síðan þarf það að fara í kynningu áður en það verður lagt hér fram þannig að athugasemdir berist o.s.frv. Ég held að það sé mjög brýnt að við eigum þá góða umræðu um það á komandi vetri hvernig þessum skipulagsmálum (Forseti hringir.) verður best háttað.