144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:24]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv forseti. Það eru gríðarleg vonbrigði að sjá þetta frumvarp. Hvernig í veröldinni á þetta að geta orðið til þess að efla sátt um framtíðarskipulag greinarinnar, eins og stendur í stjórnarsáttmálanum? Ef ég skil þetta rétt er hér verið að setja aflahlutdeild og leyfa almennt framsal og leiguframsal. Ef ég skil þetta rétt þýðir þetta að það er verið að færa eign til þeirra sem hafa veiðireynslu samkvæmt þessum reglum um 100–150 milljarða kr. á einu bretti. Er það eitthvað til þess að ná sátt um á sama tíma og þessi fyrirtæki borga sér arð, borga stjórnarmönnum sérstök aukalaun o.s.frv.?

Er ekki eðlilegt, hæstv. ráðherra, að við tökum okkur til og tökum fyrsta liðinn úr svokallaðri sáttanefnd sem oft er vitnað í, að koma auðlindaákvæði í stjórnarskrá, taka skilyrðislausa ákvörðun um að þetta sé þjóðareign og að það verði farið hana sem slíka? Það var tillaga númer eitt og eina tillagan sem var fullkomin sátt um. Hvað tefur okkur við að gera þetta? Við höfum (Forseti hringir.) möguleika á því samkvæmt breytingum varðandi afgreiðslu á stjórnarskránni.