144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:31]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við ætlum að ræða um atvinnugrein skulum við gera það með þeim hætti að bera okkur saman við aðrar þjóðir. Af hverju eru sex ár? Jú, það er kannski lágmarkstími til þess að hafa fyrirsjáanleika í greininni eins og ég fór yfir í ræðu minni. Í Danmörku byrjuðu menn úthlutun til að mynda á makríl til sex ára og framlengdu síðan til átta ára og það framlengist um eitt ár. Í Færeyjum settu menn á ákveðnum tímapunkti að það yrðu tíu ár og menn eru núna að ræða um hvað eigi að taka við.

Við erum ekki hér að breyta einu eða neinu. Við erum að tryggja nauðsynlegan fyrirsjáanleika fyrir atvinnugreinina til að hún skapi sem mestar tekjur fyrir þjóðarbúið. Við erum jafnframt að tryggja með viðbótargjaldi að eðlilegur hluti fari fyrir þetta til samfélagsins vegna þess að við viðurkennum öll að það er ávinningur af því að fá hlutdeild og selja hana og fara út. Við fundum ekki réttu leiðirnar til að skattleggja þá útkomu (Forseti hringir.) sem hefur verið rætt um og leggjum þess vegna þetta viðbótargjald á. Við skulum ræða þetta á þeim nótum.