144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:32]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru mjög góð rök. Að sjálfsögðu þarf að tryggja að menn hafi fyrirsjáanleika í greininni. Sex ár eru kannski lágmarkstími hvað það varðar, en það er bara hálf sagan. Hérna er verið að tala um að verið sé að gefa þennan kvóta til sex ára með að vísu einhvers konar gjaldtöku í staðinn fyrir að vera með samninga, að það sé frjáls markaður sem þessu er úthlutað á og menn geti á frjálsum markaði fengið samninga til svo og svo margra ára. Það er nokkuð sem ég held að þjóðin sé alveg tilbúin að skrifa upp á, það er sanngjarnt og tryggir fyrirsjáanleika sem tryggir ákveðna sjálfbærni og stöðugleika í greininni. Það er alveg sjálfsagt og ég held að þjóðin sé alveg sammála því. En þarna er verið tryggja gjafakvótann til sex ára og binda hendur næstu ríkisstjórnar. Þetta er mjög vel spilað.

Eitt annað í 1. gr. frumvarpsins sem þarf að nefna er:

„Verði ósamræmi milli ákvæða þessara laga og annarra laga á sviði fiskveiðistjórnar skulu þessi lög gilda.“

Ef þessi lög taka gildi og þau stangast að einhverju leyti á við 1. gr. laga um stjórn fiskveiða um þjóðareignina er búið að skapa vafa um þjóðareignina sem getur þýtt að lagaleg staða (Forseti hringir.) þeirra sem eru með kvótann í dag er sterkari til framtíðar. Við skulum hafa það í huga.