144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:33]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi síðasta atriðið sem hv. þingmaður nefndi eru þetta sérlög og þetta er útskýring á þeim. Það er ekkert sem stangast á við 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, þetta eru tæknilegar útfærslur.

Ég vil segja að sex árin eru algjört lágmark eins og ég tók hér tillit til og benti á fordæmi annarra þjóða. Það er algjört lágmark í fyrirsjáanleika. Við erum einfaldlega með lög í landinu og af því að hv. þingmaður minntist á að það væri hægt að fara einhverjar allt aðrar leiðir hljóta þeir sem starfa í hvaða atvinnugrein sem er á Íslandi að fara eftir þeim lögum sem gilda. Staðreyndin er til dæmis sú varðandi smábátana sem hér eru hlutdeildarsettir og eru með þessi 700 tonn miðað við aflann 2014 að til að mynda Færeyingar hafa reynt veiðar á línu og handfæri en það hefur ekki gengið vegna þess að menn þurfa að hafa þekkingu, þurfa að læra, prófa sig áfram og það kostar peninga. Kerfið sem við höfum byggt upp í áratugi byggir á því að útgerðir séu tilbúnar að leggja út í kostnað til að búa sér til veiðireynslu. Þær væntingar eru í lögunum (Forseti hringir.) að þegar komi til hlutdeildarsetningar fái menn fyrir þá veiðireynslu. Ætlar hv. þingmaður að taka þann hvata út úr atvinnugreininni? (JÞÓ: Nei.)