144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:36]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessum þingsal hafa öðru hvoru komið upp raddir um að rétt sé að setja makrílinn á uppboð. Það tækifæri var 2010 og 2011. Það var ekki nýtt. Í áliti umboðsmann segir að á grundvelli laga á Íslandi hafi verið kominn tími til að hlutdeildarsetja makrílinn á grundvelli laga sem þá voru í landinu. Tækifærið var 2010 og 2011. Það var ekki nýtt. Þau lönd sem hafa prófað uppboðsleiðina hafa flest lent í vandræðum og allflest snúið frá þeirri leið. Það hefur endað með því að mjög fáar útgerðir ná til sín öllum kvótanum, fjölbreytileikinn verður enginn og byggðasjónarmiðin verða algjörlega undir í því sambandi. Um þá leið er ekki og hefur ekki verið nein sátt í þessu samfélagi. Það eru engin lög sem fjalla um það. Það eru allt önnur lög sem benda á að menn ætli að fara aðrar leiðir og þess vegna væri það alveg út úr korti. Ég bendi á að tækifærið var 2010 eða 2011 en það er engan veginn fyrir hendi í dag.