144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:39]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi síðustu spurningu hv. þingmanns um það sem gerist á eftirmarkaði er það auðvitað þannig að framsalið er opið og það er frjáls markaður. Það er kannski það sem við höfum verið að velta mest fyrir okkur, eins og við ræddum í fyrri andsvörum við aðra þingmenn, hvað gerist við fyrstu sölu, þ.e. hjá þeim sem selja sig út úr greininni. Þess vegna er hér lagt til tímabundið viðbótargjald þessi sex ár vegna þess að þær leiðir sem við vorum að skoða til að taka á skattlagningu þess reyndust ófærar með öllu. Þá er lagt til upphafsgjald. Hér er líka farin tímabundin leið. Míní-samningaleið? Ég tel að þessi sex ár séu í raun lágmarkstími til að hafa fyrir fyrirsjáanleika. Ef við horfum til samningaleiðarinnar sem við vorum að útfæra í stjórn fiskiveiða vorum við þar kannski frekar að tala um 15 ár.