144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[17:31]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er við sama heygarðshornið og hún var á síðasta kjörtímabili. Álit umboðsmanns sagði að að minnsta kosti fram undir 2011 hefðu verið lög í landinu sem gerðu viðkomandi stjórnvöldum skylt að hlutdeildarsetja makríl. Skylt. Við því var ekki brugðist á þeim tíma. Það álit birtist í fyrrasumar. Þetta frumvarp er meðal annars að svara því, að fara að lögum. Þá er ekki hægt að koma hér upp aftur og aftur og halda því fram að smáútgerð í landinu sé sú sem best er rekin og geti skilað sem mestu og halda því síðan fram í næsta orði að beita þurfi einhverri ójafnræðisreglu. Það er jafnræðisregla í íslenskum skattalögum og gjaldalögum. Allir sitja við sama borð. Og segja að það þurfi að beita henni gagnvart smábátum sem sjálfir halda því fram að þeir skili hvað mestum arði, sem er rétt. Sumir innan þeirrar greinar eru með mestu arðsemi veiða á Íslandi, aðrir mjög dapra.

Það er ekki hægt að koma hérna upp og halda svona ræður um hlutina eins og að þeir séu annaðhvort svartir eða hvítir. Sem betur fer er fjölbreytileikinn miklu meiri og það er hann sem við þurfum að tryggja. Við verðum að ganga fram af sanngirni. Við verðum að fylgja lögunum í landinu og við verðum að gæta þess jafnræðis sem við búum við. Það er nauðsynlegt.